Labels

Friday, May 9, 2014

Salat með brokkólí og hrísgrjónum


Alveg frá því ég var lítil hef ég átt við vandamál að stríða þegar kemur að salt notkun.  Ég hef alltaf saltað matinn minn helmingi meira en allir aðrir við matarborðið en aldrei kippt mér upp við það á neinn hátt. Þegar það voru ekki lengur bara fjölskyldumeðlimirnir sem nefndu þetta við mig heldur einnig vinir mínir og samstarfsmenn jafnvel, ákvað ég að eitthvað yrði ég að gera til að breyta þessum slæma ávana mínum.  Ég viðurkenni það að ég var svolítið stressuð yfir þessu og hafði ekkert rosalega mikla trú á því að þetta gengi. Því kom það mér rosalega á óvart hvað það var auðvelt að minnka saltið.
Það tók mig ekki langan tíma að venjast því og ég finn mun meira bragð af matnum fyrir vikið.
Mér finnst voðalega dapurlegt að hugsa til þess hvað við erum upptekin af því að hafa allt eins þægilegt og auðvelt fyrir okkur sjálf og við getum. Við erum tilbúin til þess að setja nánast hvað sem er ofan í okkur eins lengi og það bragðast vel og tekur stutta tíma að gera. Við erum einnig tilbúin til þess að leifa meira en helminginn af disknum okkar ef maturinn okkar bragðast ekki 100%. Það er ekki í lagi og mér þykir mikilvægt að við áttum okkur á því að matur snýst um svo mikið meira en bara það að gleðja bragðlaukana. Reyndar er ég svo heppin að finnast nánast allur matur góður og hef nokkrum sinnum vanið mig á að borða eitthvað sem mér þótti ekki gott, eins og t.d tómata. Mér finnast þeir æðislegir í dag. Þrátt fyrir það hef ég oft bitið á jaxlinn og klárað mat sem mér finnst ekkert sérstakur bara vegna þess að ég veit hversu hollur hann er fyrir mig.





Salatið sem ég gerði í kvöld er eitt af því sem ég hefði aldrei látið ofan í mig hérna áður fyrr. Ef ég borðaði salat varð það að innihalda kjúkling, nachos jafnvel og mjög mikið af einhversskonar dressingu.  Í dag hefur þetta sem betur fer breyst og ég þarf ekki að drekkja salötunum mínum í sósu og salti til að njóta þess að borða þau.

Salatið sjálft samanstóð af:
Kálhaus
Gúrku
Rauðri papriku
Appelsínugulri papriku
Rauðlauk
Fersku rauðkáli
Kirsuberjatómötum

Ofan á salatið setti ég svo blöndu af soðnum villigrjónum sem ég bragðbætti með sesamolíu og sítrónusafa og soðið brokkólí.

Að lokum bjó ég svo til smá tahini dressingu sem ég stráði yfir allt.
Dressingin er gerð úr tahini, smá vatni, smá sítrónusafa og smá salti. Öllu blandað saman með skeið.

Eigiði góða Eurovision helgi :)

Helga María