Labels

Sunday, December 7, 2014

Ristaðar jólamöndlur





























































Þú hefur eflaust lent í því einhvertíman á ævinni að vera á rölti um verslunargötu þegar þú finnur skyndilega undursamlegan ilm í loftinu. Þú rennur á lyktina og kemur að litlum vagni þar sem verið er að rista sykraðar möndlur. Þú kaupir þér einn poka og eftir fyrstu möndluna geturðu ekki hætt fyrr en pokinn er tómur. Þegar heim er komið færðu vatn í munninn við minninguna um þetta hættulega góða sælgæti og vildir óska að þú hefðir keypt þér einn poka í viðbót, eða tíu. 










Engar áhyggjur, ég er með uppskrift af ristuðum jólamöndlum sem eru svo ótrúlega góðar að ég gæti grátið. Ég hef gert þessar möndlur síðustu þrjú ár og ég kemst ekki í alvöru jólaskap fyrr en ég hef fyllt íbúðina af yndislega ilminum sem fylgir þeim. Ég gekk svo langt fyrir tveimur árum að fylla fallegar krukkur af möndlunum og gefa í jólagjafir. Það kom mjög skemmtilega út og gladdi ættinga og vini.

Hráefni: 
500g möndlur með hýði - ósaltaðar og óristaðar (stóru pokarnir frá Heima passa akkurat í þessa uppskrift)
1/2 bolli sykur
2 tsk múskat/nutmeg
1 tsk salt
1/2 tsk allrahanda krydd
1/2 tsk engifer
1 tsk kanill
No egg, eggjalíki frá Orgran, lítur svona út og fæst meðal annars í heilsuhúsinu
4 msk kalt vatn

Aðferð:
1. Stillið ofninn á 135°c

2. Hellið möndlunum í stóra skál

3. Blandið sykrinum og kryddunum saman í aðra skál

4. Blandið saman í glas eða litla skál 1 tsk af eggjalíki og 2 msk og vatni. Þeytið með höndunum þangað til blandan er orðin svolítið froðukennd. Þetta samsvarar einni eggjahvítu og ég nota þetta svo sykurinn festist betur við möndlurnar

5. Hellið 4 msk af vatni yfir möndlurnar ásamt eggjalíkisblöndunni og passið að möndlurnar blotni allar

6. Hellið sykrinum og kryddunum yfir og hrærið öllu vel saman

7. Smyrjið ofnskúffu með olíu eða leggið á hana bökunarpappir og dreifið vel úr möndlunum.

8. Möndlurnar eiga að vera sirka 45 mínútur í ofninum en ég mæli með því að hræra í þeim á korters fresti. 



Gleðilegan annan sunnudag í aðventu.

Helga María