Labels

Sunday, June 1, 2014

Grænmetiskássa


Mér finnst fátt jafn gott og að henda fullt af grænmeti í pott og láta malla. Einfaldleikinn er minn besti vinur þegar kemur að matargerð. Í kvöld ákvað ég að búa mér til grænmetiskássu.

Svona réttir líta ef til vill ekki út fyrir að vera neitt sérstaklega spennandi í augum margra en trúið mér, þetta er alveg rosalega gott. Sú regla sem mér finnst mikilvægust í kássugerð er að spara alls ekki kryddin. Vel krydduð kássa er klárlega málið!

Það er mikilvægt að muna að maður þarf ekkert að mæla það sem maður notar í svona rétti. Það fer bara algjörlega eftir skapi, smekk og stærðina á pottinum hvað þið gerið mikið. Ég ætla samt að skrifa niður gróflega hvað ég notaði mikið hráefni og tek það fram í leiðinni að potturinn minn var alveg frekar stór.

Hráefni:
3 stórar kartöflur

1/2 sæt kartafla
2 frekar stórar gulrætur

2 laukar
1/2 haus brokkólí

Nokkrir sveppi
Handfylli af fersku spínat

2 -3 flöskur af niðursoðnum tómötum frá Himnesk
2 bollar grænmetissoð
Hrísgrjón
Grillkrydd frá Santa maria
Reykt paprikukrydd

Þurrkuð basiliku
Salt&pipar



Ég skar grænmetið niður frekar smátt og skellti því í pottinn ásamt grænmetissoðinu og niðursoðnu tómötunum. Eins og ég sagði fyrir ofan kryddaði ég þetta vel. Ég mæli aldrei kryddið sem ég nota í svona rétti en ég passa mig bara að nota nóg af því. 

Þegar grænmetið var orðið svolítið mjúkt hellti ég hrísgrjónunum ósoðnum útí pottinn. Ég man ekki hvað ég setti mikið en það var einhver slatti. Spínatið fór útí á sama tíma og ég leyfði þessu öllu að malla þar til hrísgrjónin voru tilbúin.

Að lokum smakkaði ég til og bætti útí þetta örlitlu salti. 



Helga María