Labels

Saturday, May 24, 2014

Vefjur með hummus, tahini sósu og grænmeti


Suma daga nenni ég alls ekki að elda. Þá kemur það sér oft rosalega vel að eiga tortillur í frystinum. Það er svo ótrúlega fljótlegt og auðvelt að búa til vefjur og maður á eiginlega alltaf eitthvað í ísskápnum til að setja inní þær. Í dag átti ég bæði hummus og tahini dressingu svo ég ákvað að nýta mér það í vefjurnar.

Hummusinn:

2 dósir kjúklingabaunir
1/3 bolli tahini
2 hvítlauksgeirar - rifnir

Sítrónusafi eftir smekk
Smá salt
Smá cayenne pipar


Ég byrjaði á því að skola kjúklingabaunirnar vel þar til það hætti að koma froða frá þeim. Næst hennti ég öllu í matvinnsluvél og maukaði þar til hummusinn var orðinn mjúkur og góður. Mér finnst gott að bæta við örlitlu vatni útí ef hann er of þykkur. 

Tahini dressingin:
1 ferna silken tófú
2 fullar msk tahini

1 rifinn hvítlauksgeiri
örlítið af sítrónusafa
2 tsk fajita seasoning mix

Vatn ef þarf til að þynna

Skellti öllu saman í matvinnsluvél eða blandara og blandaði þar til sósan var silkimjúk. Ekki hika við að bæta við meira af kryddinu ef ykkur finnst þurfa. Þessi sósa er alveg ótrúlega góð og tófúið gefur henni silki mjúka áferð og kryddið gefur mjög skemmtilegt bragð. 
 

Ég hitaði vefjurnar í sirka 20 sek. og setti á þær hummus, sósu og allt það grænmeti sem ég átti til. Úrvalið var nú ekkert rosalegt hjá mér í dag svo ég setti í þær papriku, gúrku, kál og rauðlauk.
Þær smökkuðust æðislega og ég mæli klárlega með því að prófa!