Labels

Saturday, November 29, 2014

Fyrsti sunnudagur í aðventu




Nú fer að líða að þriðju jólunum mínum sem vegan. Ég varð vegan í júlí 2011 og eitt af því fyrsta sem ég gerði var að skrá mig í hóp grænmetisæta á facebook og spyrja hvað í ósköpunum ég ætti að borða um jólin. Svörin sem ég fékk komu mér rækilega á óvart. Ég hafði ekki ímyndað mér að úrvalið væri svona mikið. Nú, þremur árum síðar, hlæ ég að sjálfri mér í minningunni, sitjandi um miðjan júlí með áhyggjur af jólamatnum. 

Þessi jól mín sem vegan hafa verið frábær. Ég hef ekki notið þeirra minna en fólkið í kringum mig sem borðar kjöt og ég hef alls ekki borðað minna af gómsætum mat en ég gerði áður. Ég hef bæði kynnst nýjum, spennandi réttum og hef lært að gera vegan útgáfur af mat sem ég var vön að borða áður. Sé einhver enn ekki sannfærður þá útlista ég hér að neðan hátíðarmat minn síðustu tveggja ára.

Ég hef bakað hundruði smákaka og drukkið með þeim heitt súkkulaði með soja-rjóma. Ég hef útbúið ristaðar jólamöndlur, borðað vegan laufabrauð og bakað unaðslegar piparmintu-súkkulaði muffinskökur með Sheese-rjómaostakremi. Á aðfangadagskvöld hef ég borðað sveppasúpu í forrétt, gómsæta hnetusteik í aðalrétt með öllu hefðbundna meðlætinu, brúnuðum kartöflum, sósu og salati. Með þessu hef ég drukkið malt og appelsín, fengið mér risalamande í eftirrétt og haldið svo áfram að háma í mig kökur og kræsingar. Um áramótin hef ég reynt að bregða útaf vananum. Eitt árið útbjó ég falafel-bollur, með tahini-sósu og veigamiklu salati, og áramótin á eftir pad thai núðlur, með tófú, grænmeti og toppaðar með muldnum salthnetum. Báðir réttirnir heppnuðust gríðarlega vel og í báðum tilvikum vöktu þeir sérstaka athygli samgesta minna. Ég hef svo endað jólasukkið á nýársdag með því að baka þykkar vöfflur með súkkulaðiglassúr.
Ég get því í hreinskilni sagt að mig hefur ekki hungrað þessi síðustu jól. Vegan matur er alveg jafn bragðgóður og það sem ég borðaði áður en það sem mestu máli skiptir er að engin dýr hafa þurft að þjást fyrir mínar matarvenjur og bragðlauka. Um hátíðirnar nýt ég mín með vinum og fjölskyldu, háma í mig góðan mat án þess að valda sársauka og þjáningu annarra dýra. Jólin verða ekki friðsamari. 

Já en hvað með hefðirnar?


Hefðir mannsins eru margar og oft mikilvægar, en taka þó breytingum. Er kjötneysla réttlætanlega einungis hefðarinnar vegna? Sumar fjölskyldur borða alltaf rjúpu á aðfangadag, eða kalkún, eða hamborgarhrygg. Hefðirnar breytast oft með kynslóðaskiptum eða fjölskyldubreytingum. Er breyting frá rjúpunni í hnetusteikina ekki sjálfsögð og jafnvel kærkomin?

,,Svona hefur þetta alltaf verið og kjötneysla bjargaði Íslendingum á hinum hrjóstugu tímum hér áður fyrr." Já, ég er alveg til í að skrifa upp á það. Kjötát bjargaði eflaust mörgum fyrir hundrað árum og ég ætla ekki að gera lítið úr því. Hinsvegar búum við ekki eins og við gerðum fyrir hundrað árum. Samskipti og vöruskipti eru allt önnur en á tímum landnáms og því finnst mér sú ástæða ekki eiga við rök að styðjast. Fyrir hundrað árum voru engir snjallsímar eða tölvur. Ísland var ekki fullvalda ríki og konur voru að berjast fyrir því að fá kosningarétt og rétt til menntunar og embættisstarfa til jafns við karla. Samkynhneigðir röltu ekki um götur hönd í hönd með bros á vör, unglingar kíktu ekki í Kringluna um helgar, horfðu á sjónvarpið á kvöldin og átu popp og drukku kók. Tímarnir voru erfiðir og fólk gerði það sem þurfti til að komast af við slæm lífsskilyrði. Við höfðum ekki það úrval af mat sem við höfum í dag og því varð fólk að borða kjöt, feitt smjör og mysu. Að skella sér á KFC eða á nammibarinn í Hagkaup á lítið skylt við hefðir eða afkomu eyjuþjóðar í Atlantshafi.

Verðum við ekki að halda í hefðirnar?


Nei, alls ekki! Hefðir eru ekki alltaf jákvæðar þrátt fyrir að okkur þyki þær oft gefa okkur ákveðna jarðtengingu. Við vitum öll að það eru til ýmsar hefðir úti um allan heim sem okkur finnst hræðilegar og berjumst jafnvel fyrir að séu lagðar niður. 

Í aldaraðir tíðkaðist að feður afhendu dætur sínar til manna sem virðingavott eða til liðkunar í fjölskyldudeilum. Hlutverk eiginkonunnar í hjónabandi hefur tekið miklum breytingum, sem og hlutverk eiginmannsins, og til hins betra að flestra mati í dag. Við heyrum enn fréttir af því að ungar stúlkur séu seldar eldri mönnum til hjónabands og engum dettur í hug að segja: ,,Jú blessuð vertu, þetta er bara í fínasta lagi því þetta er nú hefð og henni skal viðhalda." 

Hefðir eru ekki heilagar frekar en kýr og menn. Kjötát er því ekki hægt að réttlæta með því að tala um það sem hefð eða hversu nauðsynlegt það var fyrir hundrað árum. Við lifum í heimi þar sem við höfum ótrúlegt úrval og endalausa möguleika. Við getum tekið ákvörðun um það að hætta að skapa ónauðsynlega þjáningu og henda þessum úreltu hefðum í ruslið.  

Búum til nýjar hefðir sem fá að breytast og skaða ekki.


Helga María.