Labels

Thursday, November 27, 2014

Súkkulaðismákökur








































                                                                                                                                                           
                                                          Nú er desember að ganga í garð með tilheyrandi veisluhöldum og gleði. Margir eru farnir að hlusta á jólalög, skreyta hjá sér og baka smákökur og ég er svo sannarlega ein af þeim.
Nú hugsa eflaust margir ,,Úff hvað það hlýtur að vera ótrúlega dýrt og mikið vesen að baka vegan smákökur" eða ,,Æji jólin eru nú bara einu sinni á ári og glætan að ég nenni að baka mér einhverjar seigar, vegan hollustusmákökur". Svona hugsaði ég líka í fyrstu en ég var ekki lengi að átta mig á því hversu mikið rugl það er. Til að sanna það fyrir ykkur er hér hlægilega auðveld uppskrift af smákökum sem bragðast eins og þessar gömlu góðu.



Hráefni: 
2 bollar hveiti
2 tsk. lyftiduft
1/2 tsk salt
3/4 bolli súkkulaði - Ég notaði þetta súkkulaði. Það er ótrúlega bragðgott og minnir á mjólkursúkkulaði. Það fæst í Nettó.
3/4 bolli sykur
1/2 bolli olía

1 tsk vanilludropar
1/2 bolli sojamjólk (eða möndlu-, rís- eða haframjólk).

Aðferð: 
1. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og súkkulaði saman í stóra skál.

2. Blandið sykrinum, olíunni, vanilludropunum og mjólkinni saman í aðra skál.

3. Hellið vökvanum varlega saman við þurrefnin og sjáið til þess að þetta blandist nógu vel saman án þess þó að ofhræra deigið. Passið bara að það séu engin þurrefni ennþá í botninum.

4. Raðið kökunum á ofnskúffur. Uppskriftin gerir sirka tvær skúffur og mér finnst best að setja kökurnar á bökunarpappír. Ég miðaði stærðina á kökunum við kúfulla teskeið.

5. Bakið kökurnar í um það bil 10 mínútur í 160°C. Stundum þurfa þær að vera örlítið lengur en mikilvægt að muna að þegar þær eru tilbúnar eru þær enn svolítið of mjúkar. Þær harðna svo þegar þær kólna.

Ég get lofað því að fæstir munu taka eftir því að kökurnar séu vegan. Þær voru kláraðar á korteri og fengu tíu stig frá yngstu meðlimum fjölskyldunnar sem tóku að sér dómarahlutverkin. Þær kökur sem innihéldu meira súkkulaði en hinar fengu ellefu stig, svo það er við hæfi að segja að þær hafi slegið í gegn. 


Helga María