Labels

Saturday, June 21, 2014

Appelsínu-turmerik safi


Í morgun gerði ég mér appelsínu-turmerik safa. Ég get varla lýst því með orðum hvað hann var góður. Turmerik er mjög skemmtilegt krydd að mínu mati. Það gefur matnum fallegan gulan lit, er bragðgott og ég finn að það hefur góð áhrif á mig og þá sérstaklega magann.
Appelsínur og turmerik eru gott teymi. Mér fannst ég verða að deila með ykkur þessum æðislega safa.

Innihald

Safi úr 10 appelsínum
Handfylli frosinn ananas (hægt að nota mangó líka)
Rauð vínber eftir smekk
Turmerik (ég set bara smá í einu og smakka til)
Örlítið af lime- eða sítrónusafa

Öllu skellt í blandarann og voilá!


Ef fólki vill líða sem best á því að drekka smoothie eða safa þá er mikilvægt að muna að það passar alls ekki vel að drekka ávaxta drykki með öðrum mat.
Mörgum finnst gott að búa sér til stóran morgunat sem inniheldur brauðmeti, álegg og fleira í þeim dúr og ætla svo að drekka smoothie með. Það fer oft illa í magann á fólki og ástæða þess er sú að ávextir meltast mun hraðar en annar matur. Það tekur nokkrar klukkustundir að melta eina brauðsneið á meðan það tekur aðeins um hálftíma til klukkutíma að melta ávaxtadrykkinn og þar af leiðandi fer meltingin í smá rugl og þú getur t.d fengið magaverk, fundið fyrir uppþembu og vindverkjum.

Það er alltaf best að borða ávexti á fastandi maga eða eftir stórt vatnsglas, og borða svo brauðið sitt þá kannski klukkutíma seinna. Helst myndi ég mæla með því að sem flestir prófi það að hafa morgunmatinn sinn alltaf úr ávöxtum. Mér finnst best að gera mér smoothie og drekka hann hægt og rólega og njóta þess. En það skiptir líka máli úr hverju hann er gerður.
Margir eru vanir að gera smoothie úr ávöxtum, hnetum, fræjum, olíu jafnvel, haframjöli og margir nota jafnvel mjólkurvörur með.
Persónulega mæli ég ekki með því ef þið viljið að meltingin haldist sem best þar sem hneturnar, fræin og mjólkurvörurnar meltast einnig mun hægar en ávextirnir.
Ávaxtadrykkur ætti að innihalda einungis ávexti eða ávexti og grænmeti eins og spínat, sellerí eða gúrku.

Eigiði góða helgi kæru vinir!

Helga María