Labels

Wednesday, July 16, 2014

Grilluð samloka með pestó og hummus



,,En hvað borðaru þá ofan á brauð?" er spurning sem ég hef ósjaldan þurft að svara síðan ég gerðist vegan. Fólki finnst tilhugsunin um það að þurfa að fórna öllu uppáhalds álegginu sínu alveg afleit.
Það var ekki fyrr en ég hætti að borða dýraafurðir sem mér fór að finnast gaman að búa til samlokur.
Úrvalið er svo ótrúlega fjölbreytt. Maður þarf bara að læra að hugsa aðeins út fyrir rammann.
Fyrir þremur árum þegar ég gerðist vegan var ekki hægt að fá soja ost hér á landi og og hvað þá soja "skinku". Nú hinsvegar er hægt að fá bæði svo þeir sem elska samloku með skinku og osti þurfa ekkert að óttast.

Mig langar að deila með ykkur uppskrift af samloku sem er algjör snilld. Sú aðferð sem ég notaði við að gera hana er ef til vill ekki sú hollasta en það er lítið mál að breyta því.



Það sem þarf:
Samlokubrauð að eigin vali. - Ég notaði sólkjarnabrauð úr bakaríi í grendinni.
Grænt pestó frá Himneskt
Uppáhalds hummusinn ykkar - Hægt að búa til sinn eigin eða nota Sóma hummusinn sem er mjög góður
Tómatur
Rauðlaukur
Steiktir sveppir
Ólívuolía
Hvítlaukur


-Ég byrjaði á því að smyrja eina hlið brauðsneiðanna með ólívuolíu og nudda hvítlauksgeira svo á sömu hlið.
-Því næst steikti ég báðar hliðar á pönnu þar til þær urðu stökkar og örlítið brúnar.
-Á meðan steikti ég sveppi uppúr olíu og saltaði þá örlítið.
-Þegar sneiðarnar voru orðnar stökkar og góðar smurði ég aðra með pestóinu og hina með hummus, skellti grænmetinu á milli og át á innan við mínútu.

Þessi samloka skaust beint upp í fyrsta sæti hjá mér og ég mæli eindregið með því að þið prófið hana.

Helga María :)