Labels

Wednesday, July 30, 2014

Vegan í Barcelona




Í síðustu viku skellti ég mér til Barcelona með Sigga kærastanum mínum og fjölskyldunni hans. Ferðin var frábær í alla staði og þrátt fyrir að hafa verið í tíu daga náðum við alls ekki að skoða allt sem okkur langaði. Þó sáum við fullt af merkilegum og flottum stöðum og nutum þess líka að liggja á ströndinni og sundlaugarbakkanum hjá hótelinu.
Þar sem við Siggi erum vegan en ekki hinir í ferðinni urðum við að skipuleggja okkur aðeins þegar kom að því að borða. Við vorum svo ótrúlega heppin að vera á frábæru hóteli með tveggja manna íbúðum. Við höfðum því eldhús með öllu því helsta og borðuðum því stóran og góðan morgunmat þar á hverjum degi og elduðum okkur kvöldmat tvisvar. Hótelið heitir Hesperia Sant Joan Suits og er alveg rosa flott. Sumum finndist það kannski örlítið langt frá miðbænum. Það tók tæpan klukkutíma að fara með sporvagninum og lestinni en um tuttugu mínútur með leigubíl. Það var svo sannalega meira en þess virði, sérstaklega þegar maður er að fara í svona langan tíma. Við höfðum okkar eigin íbúð, það var risastór sundlaug í garðinum og flottur súpermarkaður í 10 mínútna göngufæri.
Þrátt fyrir það að hafa þetta flotta eldhús var ekki í stöðunni að hanga ein inni á hóteli í hvert mál svo við urðum að kanna hvaða veitingastaði okkur þótti spennandi að skoða. Við fundum nokkra og punktuðum þá hjá okkur.
Við náðum þó ekki að fara á þá alla en þetta eru þeir sem stóðu upp úr:


Við borðuðum tvisvar á Wok to walk. Maturinn þar var æðislegur. Staðurinn er pínulítill og alltaf brjálað að gera en stemningin mjög skemmtileg. Við innkomu tekur maður matseðil þar sem allt er sett upp í skrefum. Maður byjar á því að velja sér grunn, t.d hrísgrjóna- heilhveiti- eða eggjanúðlur. Næst velur maður það sem á að vera með þeim. Hægt er að velja alls konar grænmeti og svo kjöt eða tófú. Seinast velur maður svo sósu. Það sem gerir þennan stað traustvekjandi er annarsvegar það að starfsfólkið kann ensku og veit hvað vegan þýðir svo þau geta sagt manni hvaða sósur eru í lagi og hinsvegar að maður sér vel allt sem fer fram þegar núðlurnar eru eldaðar og við hverja pönnu er krani og kokkarnir þvo pönnurnar mjög vel eftir hvrja pöntun






Gopal er mjög skemmtilegur vegan veitingastaður. Staðurinn er lítill og ekki mikið af sætum en þar er ýmislegt spennandi í boði. Það er hægt að velja nokkrar tegundir af hamborgurum, samlokum og svo fullt af bakkelsi. Þarna eru risastórir kanilsnúðar, kökur og kleinuhringir. Við mættum þangað dauðþreytt eftir langan dag á ströndinni og ég fékk mér æðislegan borgara með sinnepsósu, vegan osti og grænmeti og með honum fylgdu franskar með vegan kokteilsósu sem smakkaðist alveg eins og venjuleg kokteilsósa. Þar sem ég hafði rosalega litla matarlyst þennan dag ákvað ég að láta bakkelsið bíða betri tíma og varð því fyrir miklum vonbrigðum þegar okkur gafst svo aldrei tími til að fara þangað aftur. Ég verð bara að geyma það að smakka allar þessar girnilegu kökur þangað til ég kem næst. 




Veganoteca er lítil og krúttleg búð sem selur einungis vegan vörur. Þar er hægt að fá ýmislegt góðgæti og við misstum okkur aðeins þarna inni. Það er hægt að kaupa allskonar vegan álegg og sósur, nammi og fleira. Ég keypti ótrúlega gott hvítt súkkulaði úr hrísmjólk sem ég mun aldrei gleyma. 



- þessi ís er bæði til í Veganoteca og í súpermarkaðnum hjá hótelinu okkar. Hann var svo góður að við borðuðum held ég fjóra pakka í ferðinni.

Cat bar er einn skemmtilegasti bar sem ég hef komið á. 100% vegan og allir ótrúlega vingjarnlegir og vel talandi í ensku. Þeir eru með nokkrar tegundir af borgurum og fleiri spennandi rétti. Einnig eru margar tegundir af bjór á krana. Staðurinn er virkilega töff og veggirnir eru skreyttir kisumyndum og þeir sem þekkja mig vita að það eitt og sér er nóg til að heilla mig. Það er líka píanó á staðnum sem allir mega spila á. Ég fékk mér borgara sem bragðaðist mjög vel og andrúmsloftið þarna inni gerði hann tvöfalt betri. 




Okei. Þessi staður! Ég veit ekki hvað ég get sagt. Við fórum þangað þegar við vorum búin að borða á Cat bar. Ég hafði lesið á netinu að þarna væri hægt að fá einhvern vegan ís en ég hafði ekki hugmynd um þá snilld sem ég var að fara að upplifa. Þarna inni voru fjórar eða fimm tegundir af vegan ís. Nokkrar úr hrísmjólk og nokkrar úr soja. Maðurinn við afgreiðsluborðið var hinn hressasti og leyfði okkur að smakka allar tegundir og Siggi ákvað að slá til og fékk sér heilar þrjár. Hann fékk sér súkkulaði- lakkrís- og hrísgrjónaís. Ég fékk súkkulaði- og kókosís. Kókosísinn var sá besti sem ég hef á ævinni smakkað. Það var engin smá tilbreyting að fara í ísbúð og fá vegan kúluís en ekki bara sorbet eins og er hérna heima á Íslandi. 





Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég smakka falafel á Maoz. Ég fór þangað þegar ég var í London í fyrra en þeir eru greinilega með staði í ýmsum löndum. Mikið vildi ég óska að það væri svona staður hérna heima. Maður pantar falafel og fær það í pítubrauði smurðu með hummus. Svo er þetta eins og salatbar þar sem þú fyllir pítuna af því sem þig langar. Það er mjög erfitt að velja því það er svo margt í boði og ég tróð alltof miklu í mína og hef held ég aldrei orðið jafn södd. Á staðnum er ein sósa sem er vegan og það er tahini sósa sem er fullkomin. 



Sitges
Einn daginn fórum við í ferð til Sitges sem er lítill strandbær fyrir utan Barcelona. Þarna lágum við og sóluðum okkur og nutum lífsins í botn. Staðurinn er þekktur fyrir að vera einn sá mest "gay friendly" í heimi og þarna er haldin risastór gay pride hátíð á hverju ári.



Við Siggi vorum svo ótrúlega heppin að finna frábæran grænmetisætustað í Sitges. Ég var ekkert endilega viss um að við myndum finna svona stað í þessum litla bæ og varð því mjög hissa þegar við fundum þennan. Þarna fengum við indverskan rétt sem var svo góður að hann stendur held ég mest upp úr af öllu því sem ég borðaði í ferðinni. 


Grænmetispaella
Síðast en ekki síst er það Paellan. Hana er hægt að fá á nánast öllum veitingastöðum á Spáni. Grænmetispaella er gerð úr sérstökum hrísgrjónum, grænmeti og sósu og inniheldur engar dýraafurðir. Rétturinn er borinn fram í stórri pönnu og minnir svolítið á risotto. Þetta bjargaði okkur í þau skipti sem við fórum út að borða með hópnum á venjulegum veitingastöðum.


Það voru nokkrir staðir sem við höfðum merkt hjá okkur og langaði að prófa en höfðum ekki nægan tíma og verðum að geyma þar til síðar. Það má því segja að það sé ekki erfitt að finna vegan mat í Barcelona. Það sem maður þarf að kunna að segja til að bjarga sér er ,,Sin carne, sin leche og sin huevo" sem þýðir ,,Án kjöts, án mjólkur og án eggja".

Vonandi hjálpar þetta einhverjum sem á ferð um Barcelona og veit ekkert hvert á að fara að borða.

Helga María