Labels

Wednesday, October 15, 2014

Klassísk súkkulaðikaka


Eitt af því sem ég heyri hvað oftast sem vegan er hvernig fólk getur ekki hugsað sér að þurfa að hætta að borða kökur og annað bakkelsi. Ef ég er á leið í kökuboð eða jafnvel þegar ég hef átt afmæli biðst fólk oft afsökunar á því að geta ekki bakað neitt handa mér því það kunni bara alls ekki að gera svona vegan kökur. Ég skil það mjög vel því ég hélt sjálf einu sinni að vega kökur þyrftu að innihalda billjón hráefni og það tæki mig ár og öld að skella í eina uppskrift. Ég var þó ekki lengi að komast að því hvað það er fjarri lagi. Hérna á blogginu finnið þið bæði uppskriftir af vöfflum og amerískum pönnukökum. Báðar uppskriftirnar eru hlægilega auðveldar og smakkast alveg eins og þær sem ég var vön að gera hér áður fyrr.

Þessi súkkulaðikaka er eitt dæmi um það að vegan kökur þurfa ekki að vera neitt flóknari en aðrar. Hún smakkast alveg eins og hefðbundin skúffukaka svo það er óþarfi að halda að maður verði að baka hana aukalega fyrir vegan manneskjuna sem mætir í matarboðið.  Ég get lofað ykkur að það mun enginn finna muninn.
Uppskriftin er ekkert voðalega stór. Ein uppskrift passar í lítið kringlótt form. Það er því best að tvöfalda hana ef þið ætlið að hafa hana í tveimur lögum með krem á milli eða ef þið viljið búa til skúffuköku. 



Innihald: 
1 og 1/2 Bolli hveiti
1 Bolli sykur
1/4 Bolli kakó
1 Tsk matarsódi
1/2 Tsk salt
1/3 Bolli olía
1 Tsk vanilludropar
1 Tsk eplaedik
1 Bolli vatn


1. Byrjið á því að hita ofninn í 175°c með blæstri.
2. Blandið vel saman í skál hveiti, sykri, kakó, matarsóda og salti.

3. Bætið olíu, vanilludropum, ediki og vatni saman við og hrærið. Passið að engir kekkir séu í deiginu. 

4. smyrjið form með vegan smjöri eða olíu og hellið deiginu ofan í.

5. bakið í 30-45 mínútur. 

Kremið hennar ömmu
1 1/2 Bolli flórsykur
1 1/2 Msk kakó
4 Msk bráðið vegan smjör
4 Msk uppáhellt sterkt kaffi
1 Tsk vanilludropar


Blandið öllu vel saman í skál. Ef ykkur finnst kremið of þunnt þá er um að gera að bæta meiri flórsykri útí og ef það er of þykkt finnst mér gott að bæta við kaffi til að þynna það.



Helga María