Labels

Saturday, November 22, 2014

Grænmetislasagna




Þessa helgi erum við fjölskyldan í bústað. Eins og alltaf þegar við systurnar komum saman urðum
við að elda eitthvað gott. Við ákváðum að lasagna yrði fyrir valinu og það kom ótrúlega vel út.



1 gulur laukur
2 meðalstórar paprikur
1/3 af blómkálshaus
3 gulrætur
1 poki af baby spínati
2 dósir af niðursoðnum tómötum
1 dós tómatpúrra
1 pressaður hvítlauksgeiri
2 grænmetisteningar
1 msk Oregano
1-2 tsk Pasta rossa krydd
Salt eftir smekk
1/2 dolla sheese rjómaostur með svörtum pipar og vorlauk
Smá soja mjólk til mýkingar
1/2 poki mozzarella daiya ostur
Lasagna plötur

ATH: Fyrir þá sem ekki vita hvað Sheese er, þá er það mjólkurlaus rjómaostur. Til eru nokkrar bragðtegundir og hann fæst í Hagkaup og Nettó.

Daiya osturinn er einnig mjólkurlaus og fæst hann í Hagkaup. Þar er bæði hægt að fá mozzarella og cheddar og mér finnst mozzarella osturinn áberandi betri.

1. Við byrjuðum á því að stilla ofninn á 200°c.

2. Blómkálið söxuðum við niður mjög smátt. Ef þið eigið matvinnsluvél er mjög sniðugt að setja það í hana og láta ganga í nokkrar sekúndur í senn þar til áfererðin er eins og "hakk".

3. Næst steiktum við allt grænmetið nema spínatið á pönnu.

4. Eftir nokkrar mínútur bættum við niðursoðnu tómötunum og púrrunni saman við ásamt grænmetisteningunum og kryddinu. Við létum suðuna koma upp og suðum þetta í sirka 15 mínútur.

5. Í annan pott settum við rjómaostinn og bættum örlítilli soja mjólk saman við og létum hitna svo það varð að mjúkri sósu.

Þegar allt var tilbúið settum við þetta í eldfast mót. Neðst settum við grænmetissósuna, yfir hana fóru svo lasagnaplötur, smurðum rjómaostasósunni yfir þær, þar næst spínatið og svo koll af kolli. Efst stráðum við svo rifnum Daiya osti og stráðum svolitlu af pasta rossa kryddinu yfir.

Lasagnað bakaðist í um það bil 25 mínútur eða þangað til plöturnar voru orðnar mjúkar.

Verði ykkur að góðu.
Helga María