Labels

Thursday, January 15, 2015

Rjómapasta með sveppum og papriku


Hefur þú lent í því að finna skyndilega fyrir svakalegri löngun í undursamlegt rjómapasta, brakandi hvítlauksbrauð og jafnvel hvítvínsglas með?  Þú getur ekki einbeitt þér allan daginn og ímyndar þér hversu gott það væri að sitja heima í hlýjunni með ylvolgt pasta og njóta þess að vera til. Þú drífur þig útí búð strax eftir vinnu og kaupir hráefni í spagetti carbonara og grípur hvítlauksbrauð með til að setja í ofninn.
Þegar heim er komið hellirðu þér smá hvítvíni í glas og byrjar að elda. Húsið fyllist af yndislegum ilmi og þú ert byrjuð/byrjaður að slefa niður á bringu af spenningi. Loksins þegar maturinn er tilbúinn sestu niður og þar sem maginn er farinn að ýlfra af svengd skóflarðu þessu í þig á nokkrum mínútum. Pastað er fínt jú, en alls ekki eins frábært og þú ímyndaðir þér og eftir smá stund fer þig að verkja í magann og getur ekkert gert annað en að leggjast í sófann og bíða þess að verkurinn líði hjá. Á meðan þú liggur líður þér eins og þú sért með grjót í maganum og bölvar þér fyrir að hafa ekki borðað eitthvað léttara og lofar þér að gera þessi mistök ekki aftur.

Sannaðu til, það eru fleiri sem kannast við þetta, og þar á meðal ég. Ég man hvað mér þótti gott að búa mér til rjómapasta og þá helst spagetti carbonara. Innihaldið í því er meðal annars ostur, beikon, egg og rjómi og mér finnst ekki skrítið að ég hafi þurft að liggja í fósturstellingu í sófanum eftir slíka máltíð.




Einn af mínum uppáhalds réttum sem barn var rjómapastað hennar mömmu. Ég varð mjög hissa yfir því hvað þessi vegan pasta réttur er skuggalega líkur þeim sem mamma var vön að gera. Við borðuðum þetta öll fjölskyldan fyrir nokkrum vikum og kjötæturnar í fjölskyldunni fundu engan mun á þessu pasta og því sem þau eru vön að borða.

Þrátt fyrir að þetta sé ekkert svakalega hollur matur þá er hann mun hollari en hið hefðbundna rjómapasta en gefur því ekkert eftir hvað bragðið varðar. Munurinn er bara sá að ég fæ ekki illt í magann og mér líður ekki eins og ég þurfi að leggja mig eftir að ég borða það. 






Hráefni

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi - Ég persónulega nota helst hafrarjómann frá Oatly. Hann fæst í versluninni  Góð heilsa. Þegar ég fæ ekki Oatly rjómann finnst mér mjög gott að nota kókosrjóma eða möndlurjóma. Í Nettó færðu alls konar snilldar vegan vörur og þar á meðal nokkrar tegundir af vegan matreiðslurjóma sem eru góðir í svona rétti. 
  • 1 askja sveppir
  • 1 græn paprika
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 msk næringarger - Mér finnst næringargerið frá Engevita lang best. Það fæst til dæmis í Bónus og Hagkaup.
  • 1 rifinn hvítlauksgeiri
  • 1 tsk svartur pipar
  • 1 tks pasta rossa kryddið frá Santa Maria
  • 250 g pasta 
  • salt ef þarf
Aðferð

1. Byrjaðu á því að hita vatn í potti og heltu pastanu ofan í þegar suðan er komin upp. Láttu pastað sjóða eftir leiðbeiningum á pakkanum.

2. Á meðan skerðu niður grænmetið og hitar á pönnu með örlítilli olíu. 

3. Þegar pastað er tilbúið er best að taka það úr vatninu og leggja til hliðar. Það má alveg kólna því það fer svo ofan í heita sósuna. 

4. Þegar grænmetið er orðið örlítið mjúkt skaltu setja rjómann útí ásamt kraftinum og kryddunum. (Ég hef fundið fyrir því að það tekur kókosrjómann aðeins lengri tíma að þykkna en t.d Oatly rjómann. Persónulega mæli ég með því að gefa sósunni smá tíma bara svo hún þykkni almennilega því ég hef gert þau mistök að þykkja hana of snemma með hveiti eða maísmjöli og hún hefur orðið alltof þykk.)
5. Þegar sósan er orðin eins og þú vilt hafa hana mæli ég með því að blanda pastanu útí hana og smakka aftur. Oft minnkar bragðið aðeins við það að blanda pastanu saman við og þá getur verið að manni finnist þurfa aðeins meira salt eða næringarger.

Ég mæli eindregið með því að prófa þennan rétt ef þig langar að gera vel við þig en finnst ekki þess virði að liggja með magaverk klukkutímum saman. 


Helga María