Labels

Wednesday, April 8, 2015

Chana masala






Indverskur matur er í miklu uppáhaldi hjá mér. Kryddin eru ótrúlega góð og oftar en ekki er mjög ódýrt að kaupa inn hráefni í indverska rétti. í fyrra birti ég uppskrift af æðislegum linsubaunarétti sem slær alltaf í gegn. Í kvöld gerði ég annan frábæran rétt sem kallast chana masala og er rosalega bragðgóður og hentar fátækum námsmönnum einkar vel þar sem hráefnin eru hlægilega ódýr. Uppskrfitina fann ég í erlendri matreiðslubók en ég varð að breyta henni örlítið því upprunalega uppskriftin var ekki vegan. 





Hráefni:
2 msk ólífuolía
2 tsk cumin fræ
2 litlir gulir laukar - saxaðir smátt
4 hvítlauksgeirar - pressaðir eða rifnir
3 tsk engifer - rifið
2 tsk kóríander (þurrkað)
3 tsk garam masala
1/2 tsk túrmerik
1- 2 tsk salt  
2 dósir af niðursoðnum tómötum
2 dósir af kjúklingabaunum
1/2 bolli vatn

Meðlæti:

Basmati hrísgrjón og/eða naan brauð. 

Aðferð:

1. Hitið olíuna í potti í smá stund á meðal-háum hita, bætið kúmenfræjunum úti og hrærið í sirka mínútu. Því næst er lauknum, hvítlauknum og engiferinu blandað saman við og hrært í u.þ.b 5 mínútur eða þar til laukurinn hefur mýkst aðeins

2. Næst er kryddunum bætt úti og hrært vel saman við í mínútu eða svo.

3. Kjúlingabaunirnar eru skolaðar vel áður en þær fara ofan í pottinn. Mér finnst best að hella þeim úr dósinni í sigti og láta kalt vatn renna yfir þær þangað til það hættir að koma froða frá þeim. Því næst er þeim bætt út í pottinn ásamt niðursoðnu tómötunum og vatninu. Þessu leyfi ég að sjóða í sirka tuttugu mínútur og hræri reglulega í. 

4. Um leið og rétturinn byrjar að sjóða er tilvalið að sjóða hrísgrjónin. Mér finnst best að setja 1 bolla af basmati hrísgrjónum í pott á móti 2 bollum af vatni og sjóða þar til allt vatn er horfið. 




Helga María :)